Gull úr greipum Ægis konungs - Grímsstaðavör |
Gert út frá Grímsstaðavör Grímsstaðavör er ein af sjö vörum við Skerjafjörð og sú þeirra sem lengst var róið frá. Betri lending var talin vera í Grímsstaðavör en í öðrum vörum við Skerjafjörðinn, meðal annars vegna skerja fyrir utan sem drógu úr öldunni. Vörin er kennd við bæinn Grímsstaði á Grímsstaðaholti. Grímsstaðaholtið afmarkast af Suðurgötu, Starhaga, Ægisíðu og Hjarðarhaga. Grímur Egilsson reisti sér býli á þessu svæði árið 1842 sem hann nefndi Grímsstaði. Fljótlega var farið að kenna holtið við býlið. Síðasti Grímsstaðabærinn stóð nálægt gatnamótum Dunhaga og Ægisíðu. Grímsstaðavörin var þekktust fyrir útgerð grásleppubáta síðustu áratugina, en áður fyrr var ekki síður gert út á þorsk og ýsu. Þegar mest var voru 16 bátar gerðir út frá vörinni. Þrír til fjórir réru alltaf en hinir um helgar eða þegar tími gafst til frá öðru. Tíðarfarið réði því hvaða daga var hægt að róa. Björn Guðjónsson gerði síðastur út frá Grímsstaðavör, eða allt til ársins 1998.
|